Finnur Freyr Stefánsson hefur ákveðið að segja upp störfum sem þjálfari danska úrvalsdeildarliðsins í körfubolta, Horsens, en hann tók við stjórnartaumunum þar síðasta haust.

Þetta kemur fram í facebook-færslu danska félagsins í kvöld. Þar segir að Finnur Freyr taki þessa ákvörðun vegna kórónaveirufaraldursins sem geri það að verkum að hann vilji vera nær fjölskyldu sinni.

Undir stjórn Finns Freys fór Horsens í úrslitaleik dönsku bikarkeppninnar og laut þar í lægra haldi en liðið var í þriðja sæti dönsku úrvalsdeildarinnar þegar keppni var hætt þar vegna faraldursins.

Ljóst er að barist verður um þjónustu Finns Freys hér heima en áður en Finnur hélt til Danmerkur gerði hann garðinn frægan í Vesturbænum hjá KR áður en hann söðlaði um á Hlíðarenda og þjálfaði yngri flokka hjá Val.

Þá hefur Finnur undanfarin ár verið í þjálfarateymi íslenska karlalandsliðsins, sinnt starfi yfirþjálfara yngri landsliða hjá KKÍ og þjálfað yngri landslið á vegum sambandsins.