Finnur Freyr Stefánsson söðlaði um í sumar og tók við stjórnartaumunum hjá karlaliði Horsens í körfubolta. Gengið innan vallar hefur verið gott undir stjórn Finns Freys en liðið er ásamt Randers Cimbria á toppi dönsku efstu deildarinnar með 14 stig eftir átta umferðir.

Finnur Freyr hefur ekki einvörðungu getið sér gott orð sem þjálfari liðsins en fram kemur í færslu á facebook-síðu félagsins að kappinn hafi tekið hraustlega til hendinni eftir kvöldverð með styrktaraðilum liðsins í vikunni.

Þar segir að Finnur Freyr hafi vaðið um salinn og gengið frá stólum af miklum móð. Er þetta sagt skýrt dæmi þess að hann sé tilbúinn að fara í öll þau störf sem þarf að vinna fyrir félagið.

Næsti leikur Horsens í deildinni er toppslagur liðsins á móti Randers Cimbria en sá leikur fer fram á fimmtudagskvöldið kemur.