Finnur Freyr Stefánsson, sem gerði karlalið KR fimm sinnum að Íslandsmeisturum, mun þjálfa yngri flokka hjá Val í vetur.

Í tilkynningu frá Val kemur fram að Finnur muni þjálfa minnibolta átta og níu ára auk drengjaflokks Vals. Honum til aðstoðar verður Þorgrímur Guðni Björnsson aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla.

Drengjaflokkur Vals tapaði fyrir Íslandsmeisturum Hauka í úrslitakeppninni í vor. Tíundi flokkurinn, sem er núna yngra árið í drengjaflokki, vann Scania Cup síðasta vetur. Ágúst Björgvinsson þjálfaði drengjaflokkinn áður. Hann verður áfram þjálfari meistaraflokks karla og yfirþjálfari yngri flokka.

Iðkendum í yngri flokkum Vals hefur fjölgað á síðustu árum og eru í dag rúmlega 200 samkvæmt tilkynningunni frá Val.

Finnur þjálfaði meistaraflokk karla hjá KR 2013-18. Hann gerði liðið að Íslandsmeisturum öll árin sín við stjórnvölinn hjá því. KR-ingar urðu einnig fjórum sinnum deildarmeistarar og tvisvar sinnum bikarmeistarar undir hans stjórn. Þá hefur Finnur þjálfað yngri landslið Íslands og var aðstoðarmaður Craigs Pedersen með A-landslið karla.