Eftir að hertar aðgerðir í sóttvörnum vegna kórónaveirufaraldursins voru kynntar í dag velta knattspyrnuáhugamenn því fyrir sér hvert framhaldið verður hvað mótahald varðar hér heima. Knattspyrnusamband Íslands, KSÍ, hefur ekki gefið út yfirlýsingu um framhaldið en sitt sýnist hverjum um hvað ákvörðun eigi að taka með framtíð þeirra móta sem á eftir að klára.

Stefanía Ragnarsdóttir, leikmaður kvennaliðs Fylkis, birtir færslu á facebook-síðu sinni í dag þar sem hún gagnrýnir málflutning þeirra sem hafa sagt í fjölmiðlum undanfarna daga að ekkert sé því til fyrirstöðu að halda áfram keppni í knattspyrnu hérlendis.

Stefanía biður þá sem eru á þeirri skoðun að horfa á heildarmydnina og hætta að gera lítið úr skoðun þeirra sem tóku þátt í kosningu Leikmannasamtaka Íslands sem framkvæmd var í ágúst þar sem meðal annars var spurt hvort hætti ætti leik á Íslandsmótinu og í bikarkeppninni á þeirri stundu.

„Síðustu daga hefur mikið verið rætt um hvort klára eigi Íslandsmótið í knattspyrnu eða ekki. Ég hef fylgst með umræðunni og finnst leiðinlegt að sjá hvað hún hefur stundum verið sjálfhverf og á lágu plani. Eitt af því er viðtal við Jónas Kristinsson framkvæmdarstjóra KR sem fullyrti í viðtali við Mbl að ekkert væri því til fyrirstöðu að klára mótið og að það væri vilji hjá öllum til að halda mótinu áfram," segir Stefanía í færslu sinni.

Finnst gert lítið úr skoðun þeirra sem vilja hætta keppni

„Eftir að hafa skoðað niðurstöður könnunar sem leikmannasamtökin gerðu hjá leikmönnum Pepsi Max deilda karla og kvenna um vilja þeirra til að halda mótinu áfram velti ég því fyrir mér hverjir þessir „allir“ sem Jónas talar um séu.

Alls 197 karlar og 177 konur tóku þátt í könnuninni en 36% karla og 47 % kvenna vildu hætta keppni. Þegar spurt var hvort leikmenn óttuðust að fá veiruna svöruðu 128 konur og 100 karlar því að þau væru hrædd við það. Mér finnst ummæli Jónasar gera lítið úr þessum hluta leikmanna deildarinnar og maður veltir því fyrir sér hvort eigin hagsmunir séu öllu öðru sterkari hjá honum," segir hún enn fremur.

„Annað sem mér fannst leiðinlegt að sjá var umræða sem fór fram í Pepsi Max stúkunni á Stöð 2 Sport í gær. Þar talar Hjörvar Hafliðason um að heiðursvísindamaður hafi sagt að það sé óhætt að spila fótbolta, að við eigum að hlusta á þann mann en ekki kommentakerfin. Mér finnst ótrúlegt miðað við það hvað þessi veira hefur verið ófyrirsjáanleg og heiminum þar með tekist illa að vinna bug á henni, að Hjörvar haldi að veiran geti ekki smitast við knattspyrnuiðkun.

Fyrir utan það að við vitum öll að það er meira í kringum fótboltaleiki en bara þær 90 mínútur sem eru spilaðar á vellinum sjálfum. Hjörvar talar um að hér eigi að spila fótbolta eins og alls staðar annarsstaðar í heiminum. Ég veit ekki alveg hvernig Hjörvar heldur að aðstæður séu hér en það er augljóst að aðstæður hér eru ekki eins og í atvinnumannadeildum víða erlendis þar sem leikmenn geta verið í „búbblum“ og eru skimaðir oft í viku.

Hjörvar gagnrýnir KSÍ og segir : Þeir eru smeykir og þora ekki að taka slaginn með fótboltanum. En ekki hvað? Auðvitað eru þeir smeykir við heimsfaraldur sem hefur lamað alla heimssbyggðina með tilheyrandi afleiðingum," segir Stefanía sem biður forráðamenn knattspyrnufélaganan og sparspekinga um að horfa út fyrir knattspyrnubúbbluna þegar þeir mynda sér skoðun á málinu og tjá hana.

Líta verði til hagsmuna annarra hópa samfélagsins

„Hvernig væri að taka slaginn með heilbrigðisstarfsfólki sem sleppir því að hitta fjölskyldur sínar til að búa til sem öruggast starfsumhverfi, þeim sem eru í áhættuhópi og hafa þvi lokað sig lengi af, unglingum sem voru að byrja í framhaldsskóla og missa af öllu því skemmtilega sem fylgir því, grunnskólabörnum sem gætu þurft að sitja heima hjá sér heilu dagana verði ástandið mikið verra, þeim sem hafa misst vinnuna, þeim sem eru veikir eða hafa veikst af Covid og þeim sem hafa misst ástvini úr Covid.

Er "Fyrir fótboltann" öllu öðru yfirsterkara? Mér finnst við eigum að taka slaginn öll saman, ekki bara fyrir fótboltann heldur fyrir alla."

„Þegar þetta er skrifað er óljóst hvort að fótboltamót haldi áfram eða ekki. Ég er ekki að segja hvort eigi að gera. Ég treysti einfaldlega þeim sem taka ákvarðanir um það að gera það eftir bestu þekkingu. Ég er að gangrýna umræðuna. Ég elska fótbolta og vildi ekkert frekar en að við hefðum geta átt eðlilegt fótboltasumar.

En þetta snýst ekki lengur um hvað okkur langar, þetta snýst um að taka ábyrgð og sýna samstöðu, hugtök sem við þekkjum vel í íþróttunum og gerum flest að gildum okkar. Svona umræða er knattspyrnunni til skammar og er ekki í mínu nafni," segir Stefanía um eigin skoðun á hvaða ákvörðun eigi að taka um framhaldið.