Guðbjörg Gunnarsdóttir, fyrrverandi markmaður liðsins, er bjartsýn á gengi Íslendinga. „Ég er mjög bjartsýn, liðið er með marga leikmenn sem eru að spila á háu stigi í Evrópu og liðið er búið að spila sig mjög vel saman eftir kynslóðaskiptin sem hafa komið á síðustu árum. En á sama tíma hafa önnur lið í Evrópu, eins og Ítalía og Belgía, bætt sig mikið,“ segir Guðbjörg, sem telur fyrsta leikinn lykilatriði upp á framhaldið.

„Það er algjört lykilatriði að vinna Belgíu í fyrsta leik fyrir framhaldið, Ítalía verður sennilega erfiðari leikur en við höfum átt mjög góða leiki við þær áður þannig að við eigum góðan séns á því að hafa sett okkur í góða stöðu fyrir leikinn við Frakka.“

Guðbjörg telur að Sara verði í liðinu, aðspurð hvort það séu mörg spurningarmerki í liðsuppstillingunni. „Við erum í lúxusmálum með miðverðina því Glódís, Guðrún, Ingibjörg, Guðný og Sif gætu allar spilað þar. Miðjan er að sama skapi mjög vel mönnuð. Mér finnst Sara alltaf eiga að starta ef hún getur, svo er hægt að kippa henni út ef það fer að draga af henni í seinni hálfleik,“ segir Guðbjörg, sem telur að Berglind verði fyrsti kostur í framlínunni.

„Framherjastaðan er kannski mest opin, Steini fer kannski eftir formi hverju sinni en á meðan Berglind skorar mörk þá finnst mér hún eiga skilið að spila.“

Guðbjörg kveðst spennt fyrir því að sjá Sveindísi Jane á stærsta sviðinu. „Það hefur verið geggjað að fylgjast með henni, bæði í Svíþjóð og núna í Þýskalandi. Ef hún nær að höndla pressuna sem fylgir því að spila í lokakeppni þá hefur hún alla hæfileikana til þess að slá í gegn. Ég myndi halda að mótherjarnir séu búnir að skoða hana vel og ég geri ráð fyrir að það verði tvöfaldað svolítið á hana, það ætti að gefa leikmönnunum í kring meira pláss og tíma.“

Guðbjörg telur að heimamenn séu sigurstranglegir í aðdraganda móts. „Mér finnst Englendingar, Frakkar og Svíar líta svakalega vel út. Ég ætla að skjóta á að England slái í gegn og taki þetta með mikinn stuðning heima.“