Íslensku landsliðskonurnar á skíðum stóðu í ströngu á FIS-móta­röð sem fram fór á Ítalíu síðustu daga. Þær kepptu í svigi og stórsvigi í Abetone. Þar vann Katla Björg Dagbjartsdóttir sitt fyrsta alþjóðlega FIS-mót og frammistaða hennar á mótunum mun að öllum líkindum skila henna bættri stöðu á næsta heimslista.

Um síðustu helgi hafnaði Hólmfríður Dóra Friðgeirsdóttir annars vegar í áttunda sæti og hins vegar í fimmta sæti í svigkeppni móta­raðarinnar. Hólmfríður Dóra náði svo besta árangri íslensku keppendanna þegar hún varð í sjötta sæti í stórsvigi. Í lokamótinu í mótaröðinni krækti Hólmfríður Dóra síðan í annað sætið í stórsvigi og fékk fyrir það 68.15 FIS-stig sem er nálægt stöðu hennar á heimslista.

„Ég er heilt yfir mjög sátt við frammistöðu mína á mótunum á Ítalíu. Brekkurnar þar voru frekar flatar sem hentar mér ekki vel þannig að mér finnst ég eiga töluvert inni. Ég kann betur við mig í brattari brekkum og ég held að ég geti bætt árangur minn enn meira og náð betri úrslitum í komandi mótum. Það verður nóg að gera á næstunni og það má segja að við munum búa í ferðatösku næstu vikurnar. Við erum nýkomnar til Slóveníu þar sem við keppum á FIS-mótum næstu daga,“ segir Hólmfríður en keppni hefst með stórsvigskeppni í Maribor í dag.

„Hótellífið hér í Maribor er frekar skrautlegt og sem dæmi má nefna að þegar við komum hingað byrjuðum við á því að fara út í búð og kaupa þvottaefni til þess að þvo fötin okkar í baðinu. Það er hins vegar frábært að vera farin að keppa aftur reglulega eftir að hafa ekkert keppt frá mars á síðasta ári til janúar á þessu ári. Keppni hófst í Svíþjóð í janúar og það var geggjað að komast aftur í brekkurnar. Það tók hins vegar tíma að komast aftur í keppnisgírinn. Ég fann það vel þarna að það er tvennt ólíkt að æfa og keppa. Það var smá ryð í fyrstu keppnunum en mér finnst ég hafa verið að bæta mig mót frá móti síðustu vikurnar,“ segir hún um yfirstandandi keppnisár.

Hólmfríður Dóra hefur búið í Åre í Svíþjóð í tvö og hálft ár en þar æfir hún við kjöraðstæður undir handleiðslu toppþjálfara. Þá hóf hún nám í líftækni í fjarnámi frá Háskólanum á Akureyri í haust og kann hún vel við það. Þetta fyrirkomulag hentar henni vel og hún er ánægð á sænskri grundu.

„Ég æfi í raun bara eins og atvinnumaður í Åre og þar eru aðstæður eins og þær gerast bestar í Evrópu og þjálfararnir frábærir. Ég er því mjög ánægð þar og sé fram á að búa þar áfram næstu árin. Líftæknin er svo mjög heillandi og hentar mér vel að vera í fjarnámi með skíðaiðkuninni. Þannig get ég stýrt álaginu hvað námið varðar og lært þegar mér hentar. Mér finnst ég vera að bæta mig mikið á skíðunum í Åre og mér líður í bænum,“ segir landsliðskonan.

„Fram undan er núna mikil törn af mótum og æfingum sem er bara mjög skemmtilegt. Eftir mótið í Slóveníu förum við til Austurríkis í æfingabúðir og þaðan svo til Ítalíu þar sem við tökum þátt á ítalska meistaramótinu. Mótahrinan endar svo heima á Íslandi þegar Íslandsmeistaramótið fer fram. Hvað langtímamarkmið hjá mér varðar þá er bara stefnan að halda áfram að bæta mig og klífa upp heimslistann með góðum árangri á FIS-mótum. Svo langar mig að standa mig vel á komandi stórmótum. Stóra gulrótin er svo að koma mér inn á Ólympíuleikana á næsta ári. Það verður hörð barátta um að tryggja mér farseðil þangað en ég er staðráðin í að berjast um sæti þar,“ segir hún um framhaldið.