Fimmtán Íslendingar sem voru á leiðinni í maraþonið í Tókýó með Bændaferðum fá ekki að taka þátt í hlaupinu sjálfu eftir að ákveðið var að minnka umfang hlaupsins vegna útbreiðslu kórónaveirunnar í Japan.

Þetta staðfesti Inga Dís Karlsdóttir, ferðaráðgjafi hlaupaferða hjá Bændaferðum í samtali við Fréttablaðið í dag.

Þá voru einhverjir á leiðinni til Tókýó á eigin vegum eftir að hafa öðlast þátttökurétt með umsókn í hlaupið sjálft.

„Það voru fimmtán hlauparar sem voru skráð í hlaupið frá okkur og alls 22 manns sem voru á leiðinni til Tókýó frá okkur. Við fengum fréttirnar af þessu áður en tilkynningin var gefin út og tilkynntum fólki þetta undir eins,“ sagði Inga.

Ákveðið var í gær að minnka umfang maraþonsins í Tókýó eftir að fleiri greindust með kórónaveiruna í Japan en hlaupið fer fram fyrsta mars næstkomandi.

„Það er erfitt að komast inn í maraþonið í Tókýó, það eru rúmlega 300.000 manns sem sækja um þátttökuaðild og ferðaskrifstofur geta sótt um pláss. Við höfum verið með fólk á okkar vegum í fimm ár, það selst upp strax og yfirleitt er biðlisti hjá okkur. Þetta er hluti af því að verða sex stjörnu sigurvegarar og margir á Íslandi eiga bara hlaupið í Tókýó eftir.“

Til þessa hafa 74 manns greinst með kórónaveiruna í Japan og einn látist.

Um er að ræða eitt af stærstu maraþonhlaupum heims sem er hluti af risahlaupunum sex (e. World Marathon Majors) með maraþoninu í Boston, London, Berlín, Chicago og New York.