Coco Gauff heldur áfram að vekja heimsathygli fyrir frammistöðu sína inn á tennisvellinum en hún sló Naomi Osaka, ríkjandi meistarann úr leik á Opna ástralska meistaramótinu í nótt.

Osaka sem er í þriðja sæti á styrkleikalistans tapaði báðum settunum, 3-6 og 4-6 og mun því ekki verja titilinn í ár og mun eflaust falla niður úr þriðja sæti styrkleikalistans.

Með því er Gauff komin í sextán manna úrslit á fyrsta risamóti ársins þrátt fyrir að vera aðeins fimmtán ára. Þar mun hún mæta Zhang Shuai eða Sofia Kenin.

Gauff sem hefur talað um að Williams-systurnar Serena og Venus Williams sem fyrirmyndir var fjórtán ára þegar hún lék fyrsta leik sinn á atvinnumannamótaröð og komst inn á Opna bandaríska meistaramótið tveimur mánuðum eftir fjórtán ára afmælisdag sinn.

Þá varð hún á síðasta ári yngsta konan til að öðlast þátttökurétt á Wimbledon-mótinu, elsta og virtasta tennismóti heimsins eftir að hafa slegið út þekktari nöfn í undankeppninni.

Á Wimbledon tókst Gauff að senda Venus Williams heim og fór alla leiðina í fjórðu umferð þar sem Gauff féll út gegn verðandi meistaranum Simona Halep.