Aron Guðmundsson
Miðvikudagur 10. ágúst 2022
07.36 GMT

Til­finningin er ó­trú­lega góð,“ segir Perla Sól við Frétta­blaðið að­spurð hvernig til­finning það sé að vakna upp sem Ís­lands­meistari í golfi nú þegar nokkrir dagar eru liðnir frá mótinu í Vest­manna­eyjum.

„Síðan ég keppti fyrst á þessu móti ellefu ára gömul hefur það verið einn af draumum mínum að verða Ís­lands­meistari. Það var eitt af mark­miðum mínum fyrir mótið í Vest­manna­eyjum að standa uppi sem Ís­lands­meistari og virki­lega á­nægju­legt að því mark­miði hafi verið náð.“

Spilaði vel við krefjandi aðstæður

Perla lék glimrandi vel á þeim þremur hringjum sem spilaðir voru í Vest­manna­eyjum en blása þurfti loka­um­ferðina af vegna erfiðra veður­að­stæðna sem gerðu völlinn ó­leik­hæfan.

„Það gekk nokkurn veginn allt upp sam­kvæmt á­ætlun hvað spila­mennsku mína varðar á mótinu. Að­stæður fyrsta daginn voru ansi krefjandi með sterkum vindi en seinni tvo dagana urðu að­stæður skap­legri.“

Fjórði dagurinn rann síðan upp með virki­lega erfiðum að­stæðum. „Við náðum að­eins að spila fyrstu fjórar holur vallarins þann daginn áður en mótið var blásið af,“ segir Perla Sól og bætir því við að hún skilji vel á­kvörðun móts­stjórnar um að blása fjórðu um­ferð mótsins af.

,,Það mynduðust risa­pollar á grínunum vegna mikillar rigningar og að sama skapi var mikill vindur á svæðinu þannig á­kvörðunin var vel skiljan­leg.“

Eftir þriðju um­ferðina voru Perla Sól í kvenna­flokki og Kristján Þór Einars­son í karla­flokki í for­ystunni og því krýnd Ís­lands­meistarar.

Perla Sól með bikarinn eftirsótta
Mynd: Golfsamband Íslands / seth@golf.is

Skýst upp á sjónarsviðið

Perla Sól hefur verið að gera það gott undan­farin ár í golf­í­þróttinni en það er kannski í fyrsta skipti núna sem margir ís­lenskir í­þrótta­á­huga­menn sjá hversu efni­legur kylfingur er þarna á ferð. Hún hefur náð ansi langt í í­þróttinni þrátt fyrir að vera að­eins 15 ára gömul og með stuttan feril í í­þróttinni að baki.

Fyrsti Ís­lands­meistara­titillinn er kominn í hús og lagði Perla þar að velli margar af fyrir­myndum sínum og marg­falda Ís­lands­meistara á borð við Guð­rúnu Brá Björg­vins­dóttur og Ólafíu Þórunni Kristins­dóttur. Hún segir það ó­neitan­lega sér­stakt að fá tæki­færi til þess að spila með og á móti fyrir­myndum sínum.

„Það er bara virki­lega gaman. Ég hef litið upp til þeirra lengi og finnst það því­lík for­réttindi að fá tæki­færi til þess að spila með þeim og á móti.“

Perla Sól hefur verið að gera það gott, bæði hér heima sem og erlendis
Fréttablaðið/GettyImages

Áhrif stóra bróður

Perla byrjaði að æfa golf þegar að hún var átta að verða níu ára. „Ég fór nánast um leið að keppa á golf­mótum.“ Að­spurð hvers vegna hún hafi á­kveðið að æfa golf frekar en aðrar í­þróttir segir Perla að á­stæðan fyrir því væri bróðir hennar, Dag­bjartur Sigur­brands­son sem er einnig efni­legur kylfingur.

„Mamma og pabbi eru hvorug í golfi en Dag­bjartur bróðir minn var byrjaður að spila á þessum tíma og hann dró mig með sér á völlinn í upp­hafi.“

Golf-bakterían var ekki lengi að her­taka Perlu Sól. „Ég fór strax að reyna fyrir mér á golf­nám­skeiðum og hélt síðan á­fram að æfa mig. Þetta er síðan komið á það stig núna að eitt af mark­miðunum hjá mér er að verða at­vinnu­kylfingur.“

Æfingin skapar meistarann

Það er ljóst að fram­tíðin er björt í golfinu hjá Perlu Sól enda ekki á færi allra að verða Ís­lands­meistari í full­orðins­flokki að­eins 15 ára gömul. Hæfi­leikar, á­samt þrot­lausum æfingum og metnaði, búa að baki þessum frá­bæra árangri Perlu.

„Ég æfi mig rosa­lega mikið og auk þess hef ég verið dug­leg við að keppa á mótum undan­farið, bæði hér heima sem og er­lendis. Það hefur að mínu mati hjálpað mér alveg gríðar­lega mikið í að­draganda Ís­lands­mótsins.“

Eitt af af­rekum Perlu Sólar í að­draganda Ís­lands­mótsins var að verða Evrópu­meistari í flokki stúlkna 16 ára og yngri á European Young Masters en mótið fór fram í Finn­landi undir lok júlí­mánaðar. Perla Sól sýndi á mótinu lipra takta og tryggði sér Evrópu­meistara­titilinn með pútti undir pressu á loka­holunni. Hún varð þar með braut­ryðjandi ís­lenskra kylfinga því aldrei áður hefur Ís­lendingur unnið mótið.

Perla Sól er ríkjandi Evrópumeistari í flokki stúlkna 16 ára og yngri eftir sigur á European Young Masters
Fréttablaðið/GettyImages

Skipar sér sess í sérflokki

Perla Sól er næst yngsti kylfingurinn til þess að verða Ís­lands­meistari í kvenna­flokki að­eins 15 ára, 10 mánaða og 11 daga gömul.

Ragn­hildur Sigurðar­dóttur er yngsti kylfingurinn til þess að vinna Ís­lands­meistara­titilinn. Það gerði hún í fyrsta skipti árið 1985, þá 15 ára, eins mánaða og 14 daga gömul. Hún hefur unnið fjóra Ís­lands­meistara­titla á sínum ferli til þessa.

Perla vissi af þessari stað­reynd eftir að hafa spilað með Ragn­hildi. ,,Ég spilaði einu sinni loka­hring með Ragn­hildi í meistara­mótinu og þá sagði hún mér frá þessari stað­reynd. Síðan þá hefur mig alltaf langað til þess að vinna Ís­lands­meistara­titilinn 15 ára.“

Þær tvær skipa sér nú í sér­flokk og eru einu kylfingarnir í kvenna­flokki til þessa sem hafa orðið Ís­lands­meistarar á fimm­tánda aldurs­ári.

Valin í úrvalslið Evrópu

Fleiri góðar fréttir berast síðan úr her­búðum Perlu Sólar því að á dögunum var hún valin í úr­vals­lið Evrópu hjá stúlkum 16 ára og yngri sem mun keppa gegn úr­vals­liði Breta og Íra síðar í mánuðinum. Perla segir það mikinn heiður að vera valin í úr­vals­liðið

„Ég fékk til­kynningu um að ég hafi verið valin í úr­vals­liðið nokkrum dögum eftir að ég varð Evrópu­meistari. Það er náttúru­lega bara frá­bært að vera valin í þetta lið og fá tæki­færi til að keppa fyrir hönd Evrópu á svona öflugu móti og stór á­fangi fyrir mig.“

Það er því stutt stórra högga á milli hjá Perlu Sól og í nægu að snúast. Um næstu helgi keppir hún á Ís­lands­móti ung­linga og í kjöl­farið tekur við mót um Korpu­bikarinn sem og mót með úr­vals­liði Evrópu undir lok mánaðar.

Við munum vafa­laust heyra meira af af­rekum Perlu Sólar Sigur­brands­dóttur í fram­tíðinni og ljóst að hún hefur alla burði til þess að gera það gott næstu ára­tugina í golf­í­þróttinni

Athugasemdir