Í dag eru fimmtán ár liðin síðan Liverpool vann Meistaradeild Evrópu í vítaspyrnukeppni gegn AC Milan eftir að hafa verið 0-3 undir í hálfleik.

Fyrir leik var AC Milan talið mun sigurstranglegra enda varla veikan blett að finna á liðinu. Í vörninni voru goðsagnirnar Cafu, Alessandro Nesta, Jaap Stam og Paolo Maldini með Gennaro Gattuso, Andrea Pirlo og Clarance Seedorf þar fyrir framan.

Í framlínunni var Kaka fyrir aftan Hernan Crespo og Andriy Shevchenko sem var þá einn heitasti framherji Evrópu. Liverpool réð ekkert við sóknarlotur ítalska liðsins í fyrri hálfleik eftir að Maldini kom Ítölunum yfir á upphafsmínútu leiksins.

Breyting í leikskipulagi Liverpool hleypti enska liðinu inn í leikinn á ný. Dietmar Hamann kom inn á til að aðstoða Xabi Alonso og Steven Gerrard á miðjunni í stað Steve Finnan sem meiddist í fyrri hálfleik.

Gerrard minnkaði muninn á 54. mínútu leiksins og tveimur mínútum síðar skoraði Vladimir Smicer annað mark sem hleypti spennu í leikinn á ný.

Endurkoman var fullkomnuð á 60. mínútu leiksins þegar Alonso skoraði af stuttu færi eftir að Dida hafði varið vítaspyrnu frá Spánverjanum.

Það sem eftir lifði leiks sótti AC Milan án afláts en Liverpool náði að verjast sóknum ítalska liðsins og knýja fram vítaspyrnukeppni.

Frægt er þegar pólski markvörðurinn Jerzy Dudek varði á einhvern ótrúlegan hátt frá Shevchenko af meters færi undir lok framlengingarinnar.

Það þurfti því að grípa til vítaspyrnukeppni þar sem Dudek reyndist hetja Liverpool. Serginho og Andrea Pirlo brenndu af fyrstu vítaspyrnum ítalska liðsins á meðan Dietmar Hamann og Djibril Cissé nýttu spyrnur sínar.

Milan komst inn í einvígið á ný þegar John Dahl Tomasson skoraði úr þriðju spyrnu AC Milan á meðan Dida varði frá John Arne Riise.

Kaka og Vladimir Smicer nýttu vítaspyrnur sínar og þurfti Shevchenko því að skora úr síðustu spyrnu AC Milan ásamt því að treysta á að Dida myndi verja frá Steven Gerrard.

Það kom aldrei til þess að Gerrard tæki vítaspyrnu því Dudek varði frá úkraínska markahróknum og tryggði Liverpool sigurinn.

AC Milan átti síðar eftir að ná fram hefndum þegar ítalska félagið vann 2-1 sigur í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu þegar liðin mættust á ný tveimur árum seinna.