Benfica og FH mættust í fyrri leik liðanna í annarri umferð undankeppni EHF-bikarsins ytra í dag þar sem Benfica vann 37-32 sigur.

Seinni leikurinn fer fram á heimavelli Benfica á morgun þar sem FH verður heimaliðið eftir að Hafnfirðingar seldu heimaleikjarétt sinn. 

Lenti FH Í stökustu vandræðum með öflugan sóknarleik portúgalska liðsins sem leiddi 19-16 í hálfleik. Það sama var upp á teningunum í seinni hálfleik og unnu Portúgalirnir fimm marka sigur.

Ásbjörn Friðriksson var atkvæðamestur í liði FH með tíu mörk, Bjarni Ófeigur Valdimarsson var næstur með sex og Ágúst Birgisson, Jóhann Birgir Ingvarsson og Einar Rafn Eiðsson bættu við fjórum mörkum hver.