Síðastliðinn þriðjudag rann út frestur til þess að skrá sig til þátttöku í Evrópukeppnum EHF í karla- og kvennaflokki. Alls eru fimm íslensk félagslið skráð til keppni.

Valsmenn sem eru ríkjandi deildarmeistarar í karlaflokki skráðu sig til leiks í Evrópudeildina og FH sem hafnaði í öðru sæti Íslandsmótsins og Afturelding sem varð í fjórða sæti skráðu sig til leiks í EHF keppnina.

Valur sem endaði í öðru sæti í Íslandsmóts kvenna og KA/Þór sem tapaði fyrir Fram í bikarúrslitum kvennamegin skráðu sig í EHF keppnina. Þetta er í fyrsta skipti sem KA/Þór tekur þátt í Evrópukeppni.

Gera má ráð fyrir að Valsmenn hefji leik í Evrópudeild karla í lok ágúst en aðrar keppnir muni hins vegar hefjast í september og október.