Alls taka fimm íslenskir kylfingar þátt í öðru stigi úrtökumótsins fyrir Evrópumótaröðina í golfi sem fer fram á Spáni á næstu dögum.

Aldrei áður hafa jafnmargir íslenskir kylfingar komist inn á 2. stig úrtökumótsins en alls reyndu 11 kylfingar við 1. stigið í ár. Alls hafa 30 íslenskir kylfingar reynt að komast inn á Evrópumótaröðina.

Guðmundur Ágúst Kristjánsson og Haraldur Franklín Magnús úr GR hafa þegar tryggt sér þáttökurétt í Áskorendamótaröð Evrópu, næst sterkustu mótaröð Evrópu fyrir næsta tímabil en reyna nú við Evrópumótaröðina.

Með góðum árangri á þessum mótum sem fara fram 7-10. nóvember geta fleiri íslenskir kylfingar tryggt sér þátttökurétt á Áskorendamótaröðinni.

Guðmundur Ágúst og Andri Þór Björnsson úr GR ásamt Rúnari Arnórssyni úr GK keppa á Desert Springs-vellinum á meðan Bjarki Pétursson úr GKB tekur þátt í Club de Bonmont í Tarragona.

Þá keppir Haraldur Franklín á Alenda vellinum í Alicante.