Ísland mun eiga fimm fulltrúa sem taka þátt í Vetrarólympíuleikunum í Peking eftir rétt rúmar tvær vikur. Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands vonast til að geta kynnt Ólympíufarana í þessari viku en á næstunni fundar stjórn ÍSÍ þar sem ákveðið verður hvaða einstaklingar verða fyrir valinu. Þetta staðfesti Andri Stefánsson, framkvæmdastjóri ÍSÍ.

Snorri Einarsson, landsliðsmaður í skíðagöngu, hefur þegar tryggt sér þátttökurétt með stöðu sinni á heimslistanum.

„Það er ekki búið að staðfesta nafnalistann, það verður fundað um það næstu daga og við kynnum lokahópinn og keppnisgreinarnar á föstudaginn í síðasta lagi,“ segir Andri.

Stjórn ÍSÍ mun taka lokaákvörðun um hvaða einstaklingar verða fyrir valinu meðal landsliðsfólks Íslands í alpagreinum.

Opnunarhátíðin verður 4. febrúar næstkomandi og er því ljóst að allir Íslendingarnir sem fara fyrir Íslands hönd þurfa að vera bólusettir.

Kínversk stjórnvöld gefa Ólympíuförum kost á að taka út þriggja vikna sóttkví þess í stað en það er orðið of seint fyrir Íslendingana. Tilkynnt var í vikunni að leikarnir fari fram fyrir luktum dyrum.