Íslensk félög sem eiga leikmenn á Evrópumóti kvenna í knattspyrnu á næsta ári eiga rétt á fimm hundruð evra bótagreiðslu frá UEFA á hverjum degi sem leikmaður þeirra er fjarverandi vegna Evrópumótsins.

Með því fá félögin allaveganna tíu þúsund evrur, um 1,5 milljón íslenskra króna, fyrir hvern leikmann sem fer á EM.

Það voru fimm leikmenn úr Breiðablik í síðasta leikmannahóp landsliðsins og tvær úr Val sem myndi færa Blikum 7,5 milljónir og Val þrjár milljónir íslenskra króna.

Slíkar bótagreiðslur hafa tíðkast á Evrópumóti karla undanfarin ár en standa nú til boða á EM kvenna í fyrsta sinn.

Alls verður 4,5 milljónum evra úthlutað vegna mótsins.

Miðað verður við fimm hundruð evrur á leikmann fyrir hvern dag sem sá leikmaður verður fjarverandi vegna þátttöku liðanna á EM.

Hefst það frá fyrsta æfingardegi, tíu dögum fyrir mót og stendur yfir þar til einum degi eftir að liðið lýkur keppni á mótinu.

Evrópska knattspyrnusambandið gerir ráð fyrir að greiða félögum þetta næsta haust og hvetur félögin til að nýta þetta til að fjárfesta í vexti kvennaknattspyrnu.