Filma af hjálmi Max Ver­stappen, ríkjandi heims­meistara og öku­manni Red Bull Ra­cing í For­múlu 1 olli því að upp komu vanda­mál í Ferrari bíl Charles Leclerc. Mattia Binotto, liðs­stjóri Ferrari hefur gefið þetta út en filman hafði marg­vís­legar af­leiðingar fyrir Leclerc.

Á sjón­hlíf á hjálmum öku­manna í For­múlu 1 má finna nokkrar filmur sem þeir geta tekið af með reglu­legu milli­bili á meðan keppni stendur til þess að losa sig við alls konar ó­hreinindi sem geta fest við sjón­hlífina og birgt þeim sýn þegar líður á keppnina.

Leclerc þurfti að fara inn á þjónustu­svæði eftir að­eins þrjá hringi vegna of­hitunar­vanda­mála í bíl hans. Við skoðun liðs­manna Ferrari á þjónustu­svæðinu fundu þeir filmu af hlíf á hjálmi öku­manns sem hafði sogast inn í bíl Leclercs og endað á hægri bremsurás bílsins. Hún hafi valdið þessum of­hitunar­vanda­málum.

Mattia Binotto, liðs­stjóri Ferrari segir að of­hitunar­vanda­málið í bíl Leclerc hafi ollið því að einn af skynjurunum í bíl hans hafi hætt að virka og þar með hafi hraða­nemi í bíl hans ekki virkað sem skildi er hann fór aftur inn á þjónustu­svæði seinna í keppninni.

Leclerc fór þá of hratt yfir línuna á þjónustu­svæðinu og fékk í kjöl­farið fimm sekúndna refsingu. Ætla má samt að án þessara vanda­mála hefði Leclerc samt sem áður reynst lítil fyrir­staða fyrir Ver­stappen.

Max Ver­stappen sýndi það og sannaði á Spa Franchorchamps í Belgíu um ný­liðna helgi af­hverju hann er ríkjandi heims­­meistari í For­múlu 1. Ver­stappen hlaut refsingu fyrir keppni helgarinnar vegna véla­breytinga og hóf því keppni í 14. sæti en það kom ekki að sök því Ver­stappen var nokkrum klössum fyrir ofan alla aðra á brautinni og sigldi heim öruggum sigri með mögnuðum akstri.

Hann eykur þar með for­ystu sína á toppnum í stiga­­keppni öku­manna og það er ekki hægt að sjá að nokkur maður eigi eftir að koma í veg fyrir að hann verji heims­­meistara­­titil sinn á tíma­bilinu.