Hótel í Katar sem mælt er með dvöl á og eru á opinberum lista FIFA fyrir Heimsmeistaramótið í Katar þurfa að taka á móti gestum sínum án mismununar annars verður samningum við þau rift. Þetta segir í yfirlýsingu frá FIFA í dag en í gær var sagt frá því að minnsta kosti þrjú af þeim 69 hótelum sem mælt er með dvöl á fyrir HM í knattspyrnu meini samkynhneigðum að dvelja hjá sér.

Þetta leiddi könnun Skandinavísku miðlanna SVT, NRK og DR í ljós en tuttugu af þessum 69 hótelum segast taka á móti samkynhneigðum svo framarlega sem þau myndu ekki sýna það opinberlega að þau væru samkynhneigð.

Samkynhneigð er bönnuð samkvæmt lögum í Katar en Heimsmeistaramótið í knattspyrnu hefst þar í nóvember síðar á árinu.

Í yfirlýsingu FIFA til Reuters segir að sambandið hafi sett sig í samband við hótelin og séð til þess að umrædd hótel hafi enn og aftur verið gerð meðvituð um strangar kröfur sambandsins í tengslum við að taka á móti gestum án mismununar.

,,Hótel, sem og allir aðrir þjónustuaðilar sem tengjast HM í knattspyrnu, sem ekki uppfylla þær háu kröfur sem við sem skipuleggjendur setjum fram, munu fá samningum sínum rift," segir í yfirlýsingu FIFA til Reuters.