Alþjóðaknattspyrnusambandið, FIFA, er með það til skoðunar hvort að Ekvador hafi teflt fram ólöglegum leikmanni í undankeppni HM 2022 í ljósi kvörtunar Síle sem lagði til að Ekvador myndi missa HM-sætið.

Á dögunum sendi knattspyrnusamband Síle inn kvörtun á borð FIFA vegna gruns um að Byron Castillo væri í raun fæddur í Kólumbíu.

Hann hafi fengið ríkisfang út frá fölsuðum fæðingagögnum og sé í raun þremur árum eldri en vegabréfið gefur til kynna.

Síle segist vera með fæðingargögn sem staðfesti að Byron sé fæddur í Kólumbíu.

Dómstóll í Ekvador er búinn að úrskurða að Castillo sé fæddur í Ekvador og því gjaldgengur í landsliðið. Hann kom við sögu í átta leikjum í undankeppni HM 2022.

Ekvador hefur áður fengið dóm fyrir að falsa fæðingavottorð leikmanna til að þeir yrðu gjaldgengir í landslið og gaf varaforseti knattspyrnusambands Ekvadors til kynna á síðasta ári að Castillo gæti verið einn þeirra.

Ef það reynist rétt yrði Ekvador dæmdur ósigur í öllum átta leikjunum sem Castillo tók þátt í og fullyrti knattspyrnusamband Síle að það myndi leiða til þess að Síle kæmist á HM í stað Ekvadors.