Kringlukastarinn Guðni Valur Guðnason sem keppir fyrir hönd ÍR, keppir í dag í undanúrslitum kringlukastsins á Heimsmeistaramótinu í frjálsum íþróttum sem fer fram í Doha, Katar. Guðni Valur er eini fulltrúi Íslands á mótinu í ár og viðurkenndi að það væri sérstakt að vera upp á eigin spýtur en ekki með Íslendingum. „Það er vissulega sérstakt, maður er vanur því að vera með smá hóp af Íslendingum þegar komið er á þessi mót en ég er að minnsta kosti með Pétur Guðmundsson, þjálfara minn með mér,“ sagði Guðni léttur, aðspurður út í hvort að það væri einmannalegt að vera eini Íslendingurinn sem keppir á mótinu.

Þetta er í fyrsta sinn sem Guðni tekur þátt á HM í frjálsum eftir að hafa tekið þátt á Evrópumótinu 2016 og 2018 ásamt Ólympíuleikunum 2016. „Það er alltaf magnað að koma á svona viðburði og sjá hversu stórfenglegt þetta er, að sjá allt fremsta íþróttafólks heims komið til að keppa.“

Árið hefur verið viðburðarríkt hjá Guðna. Eftir að hafa verið kosinn frjálsíþróttamaður ársins undir lok ársins 2018 kom í ljós að hann var með lífhimnubólgu sem setti verulega strik í reikninginn. Guðni hóf því ekki æfingar fyrr en í mars. Í vor tóku sig upp nárameiðsli sem hann var að glíma við yfir sumartímann en Guðni náði aftur fullri heilsu áður en skráning lokaðist á HM og ákvað því að kýla á tækifærið.

Þetta er í fyrsta sinn sem Guðni tekur þátt á HM í frjálsum eftir að hafa tekið þátt á Evrópumótinu 2016 og 2018 ásamt Ólympíuleikunum 2016. Fréttablaðið/Getty

„Miðað við allt sem hefur gengið á til þessa á árinu er maður bara nokkuð brattur fyrir mót. Það hefur gengið ágætlega til þessa á árinu og vonandi gengur enn betur hérna í hitanum þegar maður er allur búinn að mýkjast upp.“ Mótið fer fram á Khalifa-vellinum í Doha, fyrsta vellinum sem er tilbúinn fyrir HM í knattspyrnu sem fer fram árið 2022. Spáin hljómar upp á 37 gráðu hita og sól þegar Guðni keppir klukkan 17:45 að staðartíma, 14:45 að íslenskum tíma.

Guðni kom til Katar á miðvikudaginn og náði því tveimur æfingadögum í Doha fyrir keppnisdaginn. „Við höfum verið að reyna að undirbúa okkur á Íslandi, ég æfi yfirleitt í mörgum lögum af fötum til að undirbúa mig betur fyrir hitann en aðstæður verða ef til vill betri en á EM í fyrra,“ sagði Guðni Valur enda er völlurinn kældur niður og má búast við um 28 stiga hita inn á vellinum þegar keppnin sjálf fer fram að kvöldi til. Á Evrópumótinu sem fór fram í Berlín síðasta sumar var hitinn heldur meiri, rúmlega þrjátíu gráður og kom það niður á keppendunum.

„Undirlagið var að bráðna í Berlín sem varð til þess að spjótkastararnir voru að renna í atrennum sínum.“

Alls eru 32 skráðir til leiks í kringlukastinu og komast 12 áfram í úrslitin sjálf en ef Guðna tekst að jafna eða bæta eigið met, 65,53 metra, fer hann áfram í úrslitin og tryggir sér um leið þátttökurétt á Ólympíuleikunum í Tókýó næsta sumar.

„Það yrði auðvitað frábært að ná að nýta hitann vel til að bæta eigið met og komast um leið inn til Tókýó. Það er búið að hækka lágmarkið núna um rúmlega tvo metra frá Ólympíuleikunum í 2012 en stefnan er að komast til Tókýó á næsta ári.“