Brandur Olsen skoraði sigurmark FH þegar liðið hafði betur með einu marki gegn engu á móti Víkingi í síðasta leik 12. umferðar Pepsi Max-deildar karla í knattspyrnu í Kaplakrika í kvöld.

Kwame Quee fékk besta færi Víkgins í fyrri hálfleiknum en hann slapp í gegnum vörn FH-liðsins eftir frábæra stungusendingu Ágústar Eðvalds Hlynssonar sem var sprækur í leiknum. Daði Freyr Arnarsson markvörður FH varði hins vegar meistaralega.

Pétur Viðarsson komst hins vegar næst því að koma FH yfir í fyrri hálfleik þegar hann fékk gott færi eftir hornspyrnu. Skot Péturs fór aftur á móti í varnarmann Víkings og staðan því markalaus í háfleik.

Björn Daníel Sverrisson fékk gott færi til þess að brjóta ísinn fyrir FH um miðbik seinni hálfleiks en slakt skot hans hafnaði í fanginu á Þórði Ingasyni markverði Víkings.

Áður en Brandur skoraði sigurmarkið hafði Erlingur Agnarsson miðvallarleikmaður Víkings fengið fínt færi og undir lok leiksins skaut Quee boltanum yfir í upplögðu marktækifæri.

Færeyingurinn skoraði síðan með hnitmiðuðu skoti beint úr aukaspyrnu á 78. mínútu leiksins en Víkingar voru ekki sáttir við aukaspyrnudóminn í aukaspyrnunni sem Brandur skoraði úr. Brandur var þarna að skora sitt fjórða deildarmark fyrir FH í sumar.

Þetta var gríðarlega mikilvægur sigur fyrir FH sem hafði sogast niður töfluna eftir að hafa mistekist að hafa betur í fimm deildarleikjum í röð.

FH-ingar eru nú með jafn mörg stig og Valur í fimmta til sjötta sæti deildarinnar en liðin hafa 16 stig. Víkingur og HK eru hins vegar í 10. - 11. sæti deildarinnar með 11 stig hvort lið.

Kári Árnason lék sinn fyrsta leik fyrir Víking eftir að hafa gengið til liðs félagið fyrr í þessum mánuði.
Fréttablaðið/Valli