FH vann dramatískan 3-2 sigur á Val í Pepsi Max-deild karla í kvöld á sama tíma og KR vann 3-2 sigur á HK og Grindavík vann 1-0 sigur á Fylki.

Ríkjandi Íslandsmeistarar Vals eru því níu stigum á eftir toppliði ÍA þegar fimm umferðir eru búnar af tímabilinu.

FH komst þrívegis yfir í Kaplakrika í kvöld með mörkum frá Brandi Olsen, Steven Lennon og Jakúp Thomsen sem reyndist skora sigurmarkið eftir að Valsmenn jöfnuðu tvívegis með mörkum frá Eiði Aroni Sigurbjörnssyni og Ólafi Karli Finsen.

Á heimavelli komst KR 3-0 yfir í upphafi seinni hálfleiks og virtist ætla að sigla öruggum sigri heim gegn HK en gestirnir náðu að klóra í bakkan og hleypa spennu í leikinn á ný með tveimur mörkum undir lok venjulegs leiktíma.

Þá vann Grindavík annan leikinn í röð á heimavelli þegar Grindvíkingar unnu 1-0 sigur á Fylki. Eina mark leiksins skoraði Josip Zeba um miðbik seinni hálfleiks.