FH tryggði sér sæti í efstu deild kvenna í knattspyrnu með 1-0 sigri sínum gegn Aftureldingu í lokaumferð Inkasso-deildarinnar á Varmárvelli í kvöld.

Það var Margrét Sif Magnúsdóttir sem tryggði FH sigurinn og sætið í efstu deild en FH-ingar féllu þaðan síðasta haust og stöldruðu því aðeins eitt tímabil í næstefstu deild.

Guðni Eiríksson sem tók við stjórnartaumunum hjá FH síðasta haust kom því liðinu beint upp aftur í fyrstu atrennu.

Þróttur sem hafði tryggt sér sigur í deildinni fyrir lokaumferðina kláraði deildina með stæl en liðið valtaði yfir Grindavík 9-0. Lauren Wade skoraði fimm mörk fyrir Þrótt í leiknum og Linda Líf Boema og Margrét Sveinsdóttir tvö mörk hvor.

Þrír leikmenn skoruðu 20 mörk eða meira í sumar

Murielle Tiernan sóknarmaður Tindastóls varð markahæsti leikmaður deildarinnar í sumar en hún skoraði tvö marka Tindastóls þegar liðið lagði ÍA að velli með fjórum mörkum gegn einu.

Tiernan skoraði 24 mörk í deildinni, Linda Líf kom næst með 22 mörk og Wade endaði með 20 mörk. Birta Georgsdóttir framherji FH og Margrét Sveinsdóttir skoruðu svo 11 mörk hver.

Haukar sem höfnuðu í fjórða sæti höfðu betur 3-2 gegn ÍR. Afturelding endaði í fimmta sæti og Augnablik og Fjölnir sem urðu í sjötta og sjöunda sæti gerðu markalaust jafntefli í lokaumferðinni.

Grindavík og ÍR munu falla niður í 2. deild en sæti þeirra í 1. deildinni taka Völsungur og Grótta.