Handboltadeild FH hefur samið við þýska markvörðinn Phil Döhler en hann skrifaði undir tveggja ára samning við félagið.

Döhler, sem kemur frá þýska liðinu SC Magdeburg, er fæddur árið 1995 en hann mun mynda markvarðarteymi með Birki Fannari Bragasyni sem varið hefur mark liðsins undanfarin ár.

FH varð bikarmeistari á síðustu leiktíð en liðið hafnaði í fjórða sæti deildarinnar og féll svo úr leik fyrir ÍBV í átta liða úrslitum úrslitakeppninnar.

Döhler er þriðji leikmaðurinn er FH fær til liðs við sig í sumar en áður höfðu Egill Magnússon og Ísak Rafnsson gengið til liðs við félagið.

FH-ingar hefja leik í Olísdeildinni með því að mæta Selfossi í Kaplakrika miðvikudaginn 11. september næstkomandi.