FH bar 3-1 sigur úr býtum þegar liðið fékk KR í heimsókn í undanúrslitum Mjólkurbikars karla í knattspyrnu á Kaplakrikavelli í kvöld.

Það var Steven Lennon sem kom FH yfir með með marki úr vítaspyrnu sem Brandur Olsen fiskaði eftir tæplega tíu mínútna leik.

Finnur Tómas Pálmason jafnaði hins vegar metin með skalla eftir hornspyrnu frá Pablo Punyed skömmu síðar.

Brandur Olsen kom svo FH aftur yfir með föstu og hnitmiðuðu skoti rétt fyrir lok fyrri hálfleiks og Morten Beck gulltryggði svo Hafnarfjarðarliðinu sigurinn með skallamarki um miðbik seinni hálfleiks.

FH-ingar mæta annað hvort Víkingi eða Breiðabliki í úrslitaleik keppninnar en þau mætast í Fossvoginum annað kvöld.

FH hefur tvisvar orðið bikarmeistari í sögunni en liðið fór síðast í bikarúrslit árið 2017 og laut þá í lægra haldi fyrir ÍBV.

Finnur Tómas Pálmason fagnar hér marki KR í leiknum.
Það var hart barist í leiknum eins og von og vísa er í undanúrslitum bikarkeppni.