FH skaust upp í þriðja sæti Olísdeildar karla í handbolta með því að leggja Selfoss örugglega að velli, 37-31, í síðasta leik 12. umferðar deildarinnar í Hleðsluhöllinni á Selfossi í kvöld.

Jafnræði var með liðunum framan af leiknum en FH-ingar sigu fram úr undir lok fyrri hálfleiks og staðan var 18-14 gestunum í vil í hálfleik. Leikmenn FH hófu seinni hálfleikinn af miklum krafti og sigldu fram úr.

Forysta FH í leiknum varð mest átta mörk 31-23 þegar um það bil 10 mínútur voru eftir af leiknum. Vörn FH var sterk í leiknum en einn af lyklum að sigrinum var að liðið náði að halda Hauki Þrastarsyni í skefjum.

Þá var Phil Döhler góður í marki FH-liðsins sem náði svo að leysa framliggjandi vörn Selfyssinga með miklum sóma. Ásbjörn Friðriksson var markahæstur hjá FH með níu mörk og Birgir Már Birgisson og Einar Rafn Eiðsson skoruðu síðan sex mörk hvor.

Ágúst Birgisson og Bjarni Ófeigur Valdimarsson bættu fimm mörkum við í sarpinn. Atli Ævar Ingólfsson var lang atkvæðamestur hjá Selfossi með 10 mörk og Hergeir Grímsson kom næstur með sex mörk.

Haukar eru á toppi deildarinnar með 21 stig, Afturelding er í öðru sæti með 19 stig og FH og ÍR koma þar á eftir með 16 stig hvort lið. Valur og Selfoss eru í fimmta til sjötta sæti deildarinnnar með 15 stig hvort.