Selfyssingurinn Jón Daði Böðvarsson er loks laus úr prísundinni hjá Milwall, en hann gekk í vikunni til liðs við Bolton. Með því verður hann áttundi Íslendingurinn sem er á mála hjá Bolton og fjórði framherjinn. Þeir sem hafa áður leikið með félaginu hafa notið mikilla vinsælda og eru stuðningsmenn Bolton ef til vill spenntir að sjá Íslending í sínum herbúðum á ný.

Sjálfur hefur Jón Daði gott af því að komast í nýtt umhverfi eftir fyrri hluta þessa tímabils. Framherjinn fékk átján mínútur í deildarbikarnum undir lok ágúst, en var síðast í leikmannahópi Milwall um miðjan september, en hann fær nú tækifæri til að feta í fótspor frábærra íslenskra knattspyrnumanna sem hafa leikið með Bolton.

: Guðni Bergsson varð fyrsti Íslendingurinn til að leika fyrir Bolton. Guðni lék 270 leiki á átta árum í herbúðum Bolton og var lengi vel fyrirliði liðsins. Á stuttum tíma bættist í hóp Íslendinganna og voru þeir fimm í herbúðum Bolton á sama tíma árið 1998.

Eiður Smári Guðjohnsen og Arnar Gunnlaugsson voru fengnir til að koma með brodd í sóknarleik liðsins, Birkir Kristinsson var fenginn inn sem varamaður og Ólafur Páll Snorrason samdi við unglingalið Bolton.

Hvorki Birkir né Ólafur léku með aðalliði Bolton en Arnar, Guðni og Eiður voru í lykilhlutverki hjá Bolton.

Eiður var síðar seldur til Chelsea og Arnar til Leicester en Guðni lagði skóna á hilluna hjá Bolton.

Árið 2007 gekk Heiðar Helguson til liðs við Bolton og hálfu ári síðar kom Grétar Rafn Steinsson til Bolton.

Heiðar entist ekki lengi í herbúðum Bolton en Grétar átti eftir að leika 126 leiki á fjórum árum.