Formúlu 1 lið Ferrari hefur hug á að hefja viðræður við annan ökumann sinn, Spánverjann Carlos Sainz, um framlengingu á samningi hans við liðið.

Samningur Sainz við Ferrari rennur út eftir næsta tímabil en eftir frábæra frammistöðu hans á síðasta tímabili, hafa forráðamenn Ferrari mikla trú á honum og vilja að hann verði næstu árin í herbúðum liðsins.

Sainz endaði í 5. sæti í stigakeppni ökumanna á síðasta tímabili , sem var hans fyrsta tímabil hjá Ferrari, á eftir ökumönnum Red Bull Racing og Mercedes sem voru í sérklassa. Sainz endaði fimmtán sinnum í stigasæti og varð alls fjórum sinnum á verðlaunapalli.

Besti árangur Sainz á síðasta tímabili var 2. sæti í Mónakó-kappakstrinum
GettyImages

,,Ég vil setjast niður með honum, við höfum ekki hafið viðræður um nýjan samning og ég veit ekki hvað hann ætlar sér í framtíðinni," sagði Mattia Binotto, liðsstjóri Ferrari í desember síðastliðnum.

Binotto segist vera ánægður með stöðuna hjá Ferrari sem endaði í þriðja sæti í stigakeppni bílasmiða. ,,Þegar að við sömdum við Carlos var markmiðið að vera með tvo góða ökumenn sem væru góðir kappakstursmenn, stöðugir og myndu sækja í stig fyrir liðið. Mér finnst við hafa náð því á síðasta tímabili, við erum mjög stolt af báðum ökumönnunum okkar."