For­múlu 1 lið Ferrari hefur séð sig til­neytt til að gefa út yfir­lýsingu eftir sögu­sagnir í ítölskum fjöl­miðlum þess efnis að Mattia Binotto, liðs­stjóri liðsins væri kominn á enda­stöð og honum yrði skipt út fyrir næsta tíma­bil.

Sögu­sagnirnar fóru að vera há­værari í gær þar sem meðal annars ítalski í­þrótta­miðillinn virti Gazetta dello Sport hélt því stað­fast­lega fram að Binotto yrði látinn fara frá Ferrari eftir ó­við­unandi frammi­stöðu liðsins á yfir­standandi tíma­bili.

Enn fremur hélt Gazettan því fram að Frakkinn Frederic Vasseur, sem er nú hjá Alfa Romeo í For­múlu 1 yrði hans arf­taki og myndi taka við stöðu Binotto frá janúar á næsta ári.

Yfir­lýsing sem Ferrari birti í gær varðandi málið var stutt og hnit­miðuð.

„Varðandi sögu­sagnir í fjöl­miðlum varðandi liðs­stjóra Ferrari, Mattia Binotto vill liðið koma því á fram­færi að þessir orð­rómar eiga sér enga stoð í raun­veru­leikanum.“

Frammi­staða Ferrari á yfir­standandi tíma­bili í For­múlu 1 hefur ekki staðist væntingar ef litið er til fyrstu keppnis­helga tíma­bilsins þar sem liðið virtist vera með besta bílinn á rás­röðinni.

Nú er Ferrari úr leik í báðum stiga­keppnum mótaraðarinnar og á í hættu á missa 2. sæti í báðum stiga­keppnum þar sem Mercedes hefur verið á flugi undan­farið.

Í knatt­spyrnu­heiminum eru svona yfir­lýsingar, líkt og Ferrari sendi frá sér, taldar marka enda­lok þess ein­stak­lings sem þær varða. Árangur Ferrari á tíma­bilinu hefur verið ó­við­unandi og fróð­legt verður að sjá hver fram­vindan hjá liðinu verður næstu mánuði.