Gunther Steiner, liðsstjóri Formúlu 1 liðs Haas segir að vélin sem Ferrari er að þróa fyrir 2023 tímabilið í mótaröðinni sé algjör ´sprengja´ eins og hann kaus að kalla það á jákvæðan hátt.
Haas notar vélabúnað sem er framleiddur af Ferrari í bíl sinn og segir Steiner að tekin hafi verið stór skref fram á við í þróun vélar næsta tímabils undanfarið.
Ferrari lofaði góðu í upphafi síðasta tímabils en ítrekið mistök liðsins á mörgum sviðum sáu til þess að það var aldrei i titilbaráttu þegar leið á tímabilið.
Mattia Binotto hefur verið látinn axla ábyrgð á vonbrigðum tímabilsins og yfirgefur hann stöðu sína sem liðsstjóri Ferrari um áramótin þrátt fyrir að Ferrari hafi endað í 2. sæti bæði í stigakeppni ökumanna og bílasmiða.
Steiner veitti viðtal á Lorenzo Bandini verðlaunahátíðina þar sem hann greindi frá samtali sem hann átti við Binotto á dögunum.
,,Hann sagði mér að vél næsta tímabils yrði algjör sprengja (The Bomb)"
Þetta þykir gefa góð fyrirheit fyrir næsta tímabil hjá Ferrari sem og Haas sem reiðir sig á vél Ferrari.
Búist er við harðri baráttu milli ríkjandi meistara í Red Bull Racing, Mercedes og Ferrari á næsta tímabili.