Formúlu 1 lið Ferrari náði merkum áfanga í mótaröðinni um síðustu keppnishelgi sem fór fram á heimavelli liðsins á Monza. Ferrari er fyrsti bílasmiðurinn í sögu Formúlu 1 til þess að ná að hala inn 10 þúsund stigum.

Charles Leclerc, annar ökumaður liðsins endaði í 2. sæti og nældi í 18 stig á Monza á meðan að Carlos Sainz, hinn ökumaður Ferrari lenti í 4. sæti og halaði inn 12 stigum.

Þessi stig liðsfélaganna sáu til þess að heildarstigafjöldi Ferrari í Formúlu 1 fór yfir 10 þúsund stig og viðeigandi að það hafi gerst á heimavelli liðsins.

Alls hefur Ferrari 16 sinnum orðið heimsmeistari bílasmiða en liðið hefur verið að ganga í gegnum mikið titlaleysi undanfarin rúman áratug.

Síðast varð Ferrari heimsmeistari bílasmiða árið 2008 og vona stuðningsmenn liðsins að stutt sé í næst titilinn.