Formulu 1 lið Ferrari segist hafa þurft að hætta þróun á 2022 bíl sínum vegna þess að liðið gat ekki eytt meiri fjármunum vegna regluverks um kostnaðarþak.

Ferrari byrjaði tímabilið gríðarlega vel og var fyrst um sinn liðið sem leiddi í stigakeppni ökumanna og bílasmíða en síðan hafa hlutirnir þróast meira í áttina að Red Bull Racing sem hefur nú tryggt sér báða heimsmeistaratitlana í mótaröðinni í ár.

Þá virðist þýska meistaraliðið Mercedes hafa náð að taka fram úr Ferrari hvað frammistöðu varðar undanfarnar keppnishelgar og kristallast það kannski í úrslitum síðustu helgar þar sem George Russell, ökumaður Mercedes tryggði sér sigur í Brasilíu kappakstrinum og liðsfélagi hans, Sir Lewis Hamilton lenti í öðru sæti.

Ferrari hefur nú greint frá því að hluta ástæðu þess að liðið hefur ekki verið eins samkeppnishæft og margir bjuggust við sé hægt að útskýra með því að hætt var að þróa bíl liðsins, F1-75 í seinni hluta tímabilsins því annars hefði Ferrari gerst brotlegt við regluverk um kostnaðarþak.

Margri héldu að liðið hafi tekið meðvitaða ákvörðun um að hætta þróun bílsins á yfirstandandi tíambili og beina þess í stað sjónum sínum að bíl næsta tímabils.

Mattia Binotto, liðsstjóri Ferrari sagði hins vegar um nýliðna keppnishelgi í Brasilíu að liðið hefði neyðst til að skrúfa fyrir alla þróun á bílnum vegna þess að liðið hefði náð hámarki eyðslu sem er grundvallað í regluverki um kostnaðarþak, 144 milljónir Bandaríkjadala.

,,Það var í raun og veru ekki um annað að ræða, við einfaldlega kláruðum peningana í tengslum við kostnaðarþakið. Þar með gátum við ekki þróað bílinn áfram og sitjum því á sama stað."

Þetta komi þó ekki niður á bíl næsta tímabils. Mikil hugmyndavinna sé nú í gangi heimafyrir í höfuðstöðvum Ferrari.

Red Bull Racing var í síðasta mánuði dæmt til að greiða 7 milljónir Banda­ríkja­dala í sekt eftir að hafa gerst brot­legt við reglu­verk For­múlu 1 um kostnaðar­þak á síðasta tímabili. Þá hefur geta liðsins, til þess að fram­kvæma á­kveðnar loft­flæðis­prófanir á bíl sínum, verið tak­mörkuð næstu tólf mánuðina.