Bruno Fernandes leikmaður portúgalska liðsins Sporting CP mun fljúga frá Lissabon til Manchester í dag þar sem hann mun ganga frá kaupum og kjörum við Manchester United. Það er ítalski blaðamaðurinn Fabrizio Romano sem greinir frá þessu á Instagram-síðu sinni.

Romano segir að kaupverðið verði upphaflega 55 milljónir evra en 10 milljónir evra muni bætast þar vði að ákveðnum skilyrðum uppfylltum og 15 milljónir evra þegar aðrar forsendur ganga upp.

Fernandes mun undirgangast læknisskoðun seinna í dag og vera kynntur til leiks sem nýr leikmaður Manchester United síðdegis eða í kvöld. Samningur Fernandes við Manchester United mun gilda til sumarsins 2024.

Portúgalinn gæti því verið orðinn löglegur þegar Manchester United fær Wolves í heimsókn á Old Trafford á laugardaginn kemur. Manchester United er fyrir 25. umferð deildarinnar í fimmta sæti deildarinnar með 34 stig og er sex stigum á eftir Chelsea sem er sæti ofar.

Spurning hvort að þessi félagaskipti rói stuðningsmenn Manchester United sem mættu að heimili Ed Woodward, framkvæmdastjóra félagsins, í nótt og mótmæltu stefnu félagsins með því að skjóta blysum að heimili hans.