Sir Alex Ferguson, fyrrum knattspyrnustjóri Manchester United og goðsögn í sögu félagsins, talaði hreint út við Chris Armas, aðstoðarþjálfara Ralf Rangnicks hjá félaginu eftir að Chris stærði sig af ferilskrá sinni í samtali við Ferguson eftir leik Manchester United og Young Boys í Meistaradeild Evrópu fyrr á tímabilinu.

Armas hitti Ferguson í setustofu eftir leikinn þar sem að sá fyrrnefndi stærði sig af ferilskrá sinni með MLS-liðunum Chicago Fire, New York Red Bulls og Toronto FC í Bandaríkjunum. The Athletic greinir frá því sem fór á milli Ferguson og Armas og Skotinn svaraði Armas af fullri hreinskilni.

,,Þú þarft meira en það til að standa þig hér," á Ferguson að hafa sagt brosandi við Armas eftir að hann greindi honum frá ferilskrá sinni.

Líkt við Ted Lasso

Greint var frá því í febrúar, stuttu eftir að Armas var fenginn inn til aðstoðar Rangnick hjá Manchester United að leikmenn félagsins væru farnir að missa bæði trúnna á Rangnick sem og Armas.

Armas, stjórnaði meirihluta æfinga hjá Manchester United á meðan að hann starfaði þar og leikmenn liðsins eru sagðir hafa líkt honum við persónuna Ted Lasso úr samnefndum þáttum. Þjálfara sem kemur úr Amerískum fótbolta og tekur við enska knattspyrnuliðinu AFC Richmond í þáttunum.