Sir Alex Ferguson fór fögrum orðum um Arsene Wenger, fyrrum andstæðing sinn þegar Wenger var heiðraður fyrir störf sín innan knattspyrnunar í gær.

Wenger og Ferguson leiddu saman hesta sína 49. sinnum sem þjálfarar Arsenal og Manchester United og hafði Ferguson oftar betur eða 23 sinnum.

Franski knattspyrnustjórinn sem hefur ekki útilokað að hann taki við öðru starfi var heiðraður sem goðsögn í knattspyrnuheimnum (e. Legends of Football award) af Nordoff Robins í gær.

Áður hafa Frank Lampard, Sir Kenny Dalglish, Sir Bobby Robson og Sir Stanley Matthews hlotið þessi verðlaun og fór Ferguson fögrum orðum um fyrrum keppinaut sinn.

„Mér þykir leitt að vera ekki viðstaddur þegar þú hlýtur þessi verðlaun Arsene frá þessum frábæru góðgerðarsamtökum. Ég er stoltur af þáttöku þinni í starfi þeirra og afrekum þínum með Arsenal. Þú ert goðsögn í orðsins fyllstu merkingu og átt þessi verðlaun fyllilega skilið,“ segir Ferguson í myndbandinu sem sjá má hér fyrir neðan.

„Ég þakka þér fyrir samkeppnina, það voru frábærir tímar og ég er afar glaður að heyra að þú skulir fá þessi verðlaun.“