Luka Dončić, leikmaður Dallas Mavericks og einn besti leikmaður NBA-deildarinnar um þessar mundir ætlar í mál við móður sína sem neitar að gefa eftir einkaleyfi á vörumerkinu sem tengist nafni hans. Frá þessu greinir blaðamaðurinn Marc Stein sem er vel tengdur inn í málefni Dallas Maverick.

Stein segir frá því að á sama degi og Dončić spilaði með Slóveníu gegn Þýskalandi á EuroBasket hafi hann þurft að skila inn greinargerð til bandarískrar stofnunar sem fer með málefni einkaleyfa og vörumerkja en Dončić hefur undanfarið reynt að fá einkaleyfið á vörumerkinu tengt nafni sínu fært yfir á sig frá móður hans.

Dončić er aðeins 23 ára gamall og skaust mjög ungur fram á sjónarsviðið í körfuboltaheiminum með Real Madrid. Árið 2018 ákvað hann síðan að taka skrefið yfir í NBA deildina þar sem hann gekk til liðs við Dallas Mavericks.

Síðastliðinn þriðjudag lagði hann inn beiðni til bandarísku einkaleyfa- og vörumerkjaskrifstofunnar (USPTO) þar sem bundinn yrði endi á skráningu vörumerkisins Luka Doncic 7. sem nú er í eigu móður hans, samkvæmt lögfræðistofunni Brown Rudnick sem er fulltrúi Dončić.

Dončić vill skiljanlega að einkaleyfi allra vörumerkja sem bera nafn hans séu í hans eigu en móðir hans, Mirjam Poterbin er treg til þess að láta einkaleyfin sem eru skráð á hana af hendi.

Það var á nýliða tímabili hans í NBA-deildinni árið 2018 sem Dončić samþykkti að móðir hans myndi vera skráð fyrir einkaleyfinu Luka Doncic 7. Hann er nú nokkrum árum eldri og hefur, í fjölmörg skipti, reynt að semja um flutning á yfirráðum þeirrar skráningu frá móður sinni til sín.

Upphaflegu tilraunum Dončić til að skrá „LUKA DONCIC“ sem vörumerki undir hans stjórn var fyrst hafnað af USPTO vegna fyrr stofnaða vörumerkisins „LUKA DONCIC 7“ , sem móðir hans, Poterbin hefur neitað að afsala sér. Að sögn lögfræðinga hans, sendi Dončić frá sér skriflega tilkynningu í júlí 2021 um að hann vildi afturkalla yfirráð móður sinnar.