Vincent Kompany, knattspyrnustjóri íslenska landsliðsmannsins Jóhanns Bergs Guðmundssonar hjá Burnley jós hann lofi í viðtali sem hann fór í á dögunum. Jóhann Berg hefur undanfarið þurft að ganga í gegnum erfiða tíma sem knattspyrnumaður þar sem meiðsli hafa hamlað framgöngu hans innan vallar.

Kompany, sem spilaði á sínum tíma stórt hlutverk sem leikmaður Manchester City segist að mörgu leiti geta tengt við raunir Jóhanns Bergs. „Ég var á sama staða nokkrum sinnum á mínum ferli. Ég tengi við það sem hann er að ganga í gegnum og hvernig hann er núna að taka sín fyrstu skref núna í endurkomunni."

Það dyljist engum hvaða leikmaður búi í Jóhanni Berg.

„Með Jóhann Berg er þetta mjög auðvelt og ég hef sagt þetta áður. Jóhann sem leikmaður, þegar hann er heill heilsu, er leikmaður sem félag eins og Burnley hefur yfirleitt ekki efni á. Hann er mjög góður leikmaður. Fyrir okkur er áskorunin einfaldlega sú að halda honum ánægðum, í formi."

Hann segir það erfiða tíma þegar leikmenn eru að ganga í gegnum tímabil í meiðslum.

„Þegar þetta er staðan upplifir þú marga erfiða daga. Við erum í umhverfi sem þrífst á samkeppni og þegar líkaminn þinn gerir þér ekki kleift að geta sannað þig og brugðist við þá geta það verið mjög erfiðir dagar."