Samtök litblindra í Bretlandi lýstu í gær yfir óánægju sinni með búningavalið á leik Liverpool og Manchester United þar sem margir sem eru litblindir áttu erfitt með að sundurgreina liðin.

Manchester United lék í treyju sem er í vægum grænum lit að sögn Adidas en í útileikjum á þessu tímabili hefur félagið yfirleitt leikið í svörtum og hvítum treyjum.

Algengasta tilfellið af litblindu er rauðgræna litblindan, þegar aðilar eiga erfitt með að sundurgreina rauðan lit og grænan. Fyrir vikið áttu margir í vandræðum með að sundurgreina leikmenn liðanna í þessum erkifjendaslag.

Að sögn framkvæmdarstjóra samtaka litblindra í Bretlandi hafa samtökin aldrei fengið jafn margar kvartanir yfir búningavali í leik en enska úrvalsdeildin hefur reynt að koma í veg fyrir að atvik eins og þessi komi upp.

Sex ár eru liðin síðan NFL-deildin baðst afsökunar á búningavali í leik rauðklæddra Buffalo Bills og grænklæddra New York Jets.

Bruno Fernandes, sóknartengiliður Manchester United, er í stóru hlutverki í auglýsingaherferð samtaka litblindra í Portúgal.