Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, ákvað að fela Lyfjaeftirliti Íslands að sjá um fræðslu og forvarnarstarfi í baráttunni gegn hagræðingu úrslita í íþróttum.
Þetta kemur fram í tilkynningu sem birtist á vef Stjórnarráðs Íslands í dag. Með því bætist þetta við verkefnalista Lyfjaeftirlitsins sem sér um lyfjaeftirlit í íþróttum hérlendis.
,,Það var mikið framfaraskref þegar ráðuneytið og Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands stofnuðu Lyfjaeftirlit Íslands. Með virkri fræðslu og eftirliti fyrirbyggjum við lyfjamisnotkun í íþróttum og stuðlum að heiðarlegri íþróttaiðkun,“ segir Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra.
„Nú útvíkkum við það hlutverk með forvörnum gegn hagræðingu úrslita. Þetta rúmast vel innan sömu stofnunar enda markmiðið hið sama, að stuðla að því að íþróttir fari fram af heilindum.“
Þannig verði hlutverk Lyfjaeftirlitsins að útbúa fræðsluefni og fyrirlestra fyrir íþróttahreyfinguna, standi fyri fræðslufundum og þrói frekara samstarf við hagaðila.
Sigurður Gísli Snorrason sem lék með Aftureldingu á síðasta ári var á dögunum dæmdur í bann frá öllum keppnum út árið 2023 af aga- og úrskurðarnefnd KSÍ eftir að það kom í ljós að hann hafði stundað það að veðja á leiki á Íslandi, þar á meðal eigin leiki.