Félögin í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla hafa hafnað hugmyndum forráðamanna Liverpool og Manchester United sem settar voru fram á sunnudaginn og gengu undir nafninu Project Big Picture. Kosið var um tillögurnar á fundi forráðamanna félaganna í dag og voru þær felldar.

Hins vegar var samþykkt á fundinum að smíða björgunarpakka fyrri félgin í C og D deildunum en gjaldþrot blasir við þeim félögum verði ekkert gert.

Björn Berg Gunnarsson, sérfræðingur í fjármálum í íþróttum fór vel yfir þær meginhugmyndir sem fram komu í Project Big Picture í Fréttablaðinu í dag en sjá má þá grein hér að neðan:

Öll 20 félög deildarinnar samþykktu samhjóða að hvorki forráðamenn ensku úrvalsdeildarinnar né enska knattspyrnusambandsins myndu taka fyrir eða vinna með þær tillögur sem eigendur Liverpool og Manchester United settu saman.

Félögin ákváðu á fundinum í dag að vinna saman að því að búa til framtíðarplan fyrir ensku knattspyrnuna og það yrði gert með gegnsæjari hætti en gert var þegar fyrrgreindar tillögur voru settar samana. Þá yrði það gert í allri vinnu í framtíðinni sem varðar heildarskipulag eða fjárhagsleg málefni í knattspyrnunni á enskri grundu.