Félög í Damallsvenskan hafa sýnt þremur af yngstu leikmönnum íslenska kvennalandsliðsins mikinn áhuga eftir jafntefli Íslands og Svíþjóðar á dögunum.

Leikmennirnir sem um ræðir eru Sveindís Jane Jónsdóttir sem leikur með Breiðablik á láni frá Keflavík, Karólína Lea Vilhjálmsdóttir úr Breiðablik og Hlín Eiríksdóttir sem leikur með Val.

Umboðsmaðurinn Gylfi Sigurðsson staðfestir í samtali við Fotbollskanalen að félög í Svíþjóð hafi sýnt leikmönnunum áhuga.

„Það var áhugi fyrir leikinn milli Íslands og Svíþjóðar en áhuginn hefur aukist eftir leikinn. Það eru nokkur félög bæði í Svíþjóð og Noregi sem hafa verið að sýna þeim áhuga,“ segir Gylfi í samtali við Fotbollskanalen um leikmennina.

„Liðin hafa verið að spurjast fyrir um samningsstöðu þeirra og mesti áhuginn er á Sveindísi og Hlín. Þær eru allar að einbeita sér að undankeppni EM og svo skoðum við hvaða félög standa til boða.“