Greint er frá málinu á vef Reuters í dag. Forráðamenn Juventus segja ekkert að óttast, segjast alltaf hafa farið eftir lögum og að félagið væri nú í fullu samstarfi við yfirvöld á meðan að rannsókn stendur yfir.

Greint var frá því í síðustu viku að nokkrir af yfirmönnum félagsins sætu rannsóknar í máli sem sneri að félagsskiptum leikmanna til og frá félaginu.

Til skoðunar er hvort félagið hafi framvísað fölskum skjölum til fjárfesta og gefið út reikninga fyrir viðskipti sem aldrei áttu sér stað.

Ítalska fjármálalögreglan gerði leit á skrifstofum félagins í síðustu viku og hefur nú undir höndunum skjöl er snúa að félagsskiptum til og frá félaginu á árunum 2019-2021.

Í ágúst síðastliðnum náði Juventus samkomulagi við enska úrvalsdeildarfélagið Manchester United um félagsskipti Cristiano Ronaldos til síðarnefnda félagsins. Kaupverðið hljóðaði upp á 23 milljónir þar sem 8 milljóna evra eru skilgreindar sem árangurstengdar greiðslur. Samkvæmt upplýsingum frá Juventus eru saksóknarar einnig að skoða fjármálayfirlýsingar félagsins á fyrri hluta þessa árs í tengslum við söluna á Ronaldo til Manchester United.

Samkvæmt heimildum La Gazetta dello Sport, eru til upptökur af símtölum þar sem hátt settir menn innan Juventus ræða sín á milli um skjal í tengslum við félagsskipti Ronaldos sem hefði ''tæknilega séð'' ekki átt að vera til.

Talið er að alls séu 42 félagsskipti til skoðunar hjá Juventus sem tilkynnti um met tap á fjárhagsárunum 2020/2021 sem nam 210 milljónum evra.