Kvennalandsliðið í handbolta lauk keppni á fjögurra liða æfingamóti í Póllandi í gær með 30-28 sigri á Slóvakíu. Ísland vann því tvo leiki af þremur og var hreinlega óheppið að fá ekki hið minnsta stig í leiknum gegn gestgjöfunum. 

Leikirnir voru hluti af undirbúningi Íslands fyrir umspilsleiki gegn Spánverjum í vor. Tæpir tveir mánuðir eru í leikina sem fara fram hér heima og ytra þar sem sigurvegarinn tryggir sér þáttökurétt á HM í Japan í lok þessa árs.

Eftir naumt tap fyrir Póllandi, gestgjöfunum, á föstudaginn vann Ísland fimm marka sigur á Argentínu á laugardaginn. Ísland fékk stuttan tíma til undirbúnings enda kom Argentína í stað Angóla á miðvikudaginn síðasta en það truflaði ekki íslenska liðið sem vann 31-26 sigur. 

Ragnheiður Júlíusdóttir, sem kom inn í hópinn með stuttum fyrirvara eftir að Mariam Eradze þurfti að draga sig úr hópnum vegna meiðsla, var markahæst og kosin best í sigrinum á Argentínu.

Ísland fylgdi því eftir með 30-28 sigri á Slóvakíu í gær. Ísland var í örlitlum vandræðum í vörninni framan af og leiddi Slóvakía 17-14 í hálfleik en með góðum viðsnúningi náði Ísland að snúa leiknum sér í hag og vinna.

Axel Stefánsson, þjálfari landsliðsins, var heilt yfir ánægður með helgina þegar Fréttablaðið sló á þráðinn til hans.

„Heilt yfir er ég mjög ánægður, það er auðvitað smá svekkelsi að það er fimm mínútna kafli í fyrsta leiknum sem kostar okkur sigur í þessu móti. Þessi góðu lið refsa við hvert tækifæri og við verðum að læra af því en heilt yfir er ég mjög sáttur,“ sagði Axel og bætti við:

„Leikurinn á föstudaginn var mun hægari en hinir tveir leikirnir þar sem það var mikið um hraðar miðjur og það var mikið tempó. “

Axel var sáttur með varnarleik liðsins stærstan hluta mótsins.

„Varnarleikurinn var frábær stærstan hluta mótsins og markvarslan til fyrirmyndar. Ég var ósáttur að við skyldum hleypa inn sautján mörkum í fyrri hálfleik gegn Slóvakíu en við löguðum það í hálfleik og fengum aðeins ellefu mörk á okkur í seinni hálfleik. Stelpurnar sýndu karakter þar.“

Aðspurður sagðist Axel hafa fengið svör við þeim spurningum sem hann hafði í aðdraganda leikjanna gegn Spánverjum.

„Ég fékk svör við mínum spurningum. Við dreifðum álaginu vel sem hefur ekki verið möguleiki í mótsleikjum. Við nýttum hornamennina vel í þessum leikjum og sóknin gekk að mörgu leyti vel. Við eigum enn í smá vandræðum með skotnýtinguna í dauðafærum en það er eitthvað sem auðveldlega er hægt er að bæta.“