Danski handboltasérfræðingurinn Rasmus Boysen, sem spilar einnig með danska liðinu Fredericia HK, segir frá því á samfélagsmiðlinum Twitter í gærkvöldi að hann hafi fengið fjöldann allan af ógeðfelldum skilaboðum sem eigi ekkert skylt við handbolta.

Rasmus hefur vakið athygli hjá hinum almennna handboltaáhugamanni fyrir góðar og hnitmiðaða upplýsingagjöf á Twitter. ,,Þegar að ég les sumar athugasemdirnar eftir tap Dana verð ég vonsvikinn. Handbolti er herramannsleikur, við berjumst í 60 mínútur, að mestu án átaka og af virðingu. Á stórmótum sýna stuðningsmenn hvor öðrum virðingu og eiga saman góðar stundir."

Hann segist á sínum ferli sem handboltasérfræðingur hafa eignast marga vini í gegnum Twitter, 99% þeirra samskipta sem hann eigi þar séu á góðu nótunum og virðingarverð. ,,En í kvöld hefur allt annað verið uppi á teningnum. Eftir töp er allt í lagi að vera vonsvikinn eða reiður en sum skilaboðin sem ég hef fengið eru ógeðfelld og eiga ekkert skylt við handbolta."

Mikil reiði gerði vart um sig hjá stuðningsmönnum íslenska handboltalandsliðsins eftir að ljóst varð að möguleikarnir á sæti í undanúrslitum Evrópumótsins voru úr sögunni eftir tap Dana gegn Frökkum. Margir hverjir voru á því að Danir hefðu tapað vísvitandi.

,,Ég er alveg viss um að dönsku leikmennirnir (suma þeirra þekki ég persónulega) gerðu ALLT til þess að vinna. Að gefa annað í skyn er vanvirðing," skrifaði Rasmus í löngum þræði á Twitter.

Nicolaj Jacobsen, landsliðsþjálfari Dana, ákvað að hvíla þrjá lykilleikmenn liðsins fyrir leikinn gegn Frökkum í gærkvöldi þar sem að Danir höfðu nú þegar tryggt sæti sitt í undanúrslitum fyrir leikinn. ,,Áhersla Nicolaj Jacobsen er aðeins á eitt, að vinna Evrópumótið og ef hann telur að möguleikar Dana séu mestir með því að hvíla helstu stjörnurnar gegn Frakklandi, þá ætti hann að sjálfsögðu að gera það. Það er hans starf! Þetta er sorglegt fyrir Ísland en þetta er veruleikinn."

Rasmus segist ávallt reyna að svar öllum þeim skilaboðum og spurningum sem beint er að honum í kringum starf hans sem handboltasérfræðingur en hann segist ekki hafa getað það í gærkvöldi. ,,Í fyrsta lagi vegna þess að skilaboðin eru einfaldlega of mörg og í öðru lagi vegna þess að mjög mörg þeirra eru byggð á fáfræði og eru heimskuleg."