Michael Masi fyrrum keppnis­stjóri For­múlu 1 hefur nú stigið fram og sagt frá því að hann hafi fengið líf­láts­hótanir í kjöl­far af­drifa­ríkrar á­kvörðunar sinnar í tengslum við loka­kapp­akstur mótaraðarinnar í Abu Dhabi í fyrra.

,,Þetta voru erfiðir dagar," segir Masi, sem hefur nú yfir­gefið stöðu sína sem starfs­maður á vegum Al­þjóða­akstur­s­í­þrótta­sam­bandsins (FIA), í sam­tali við News Corp. ,,Mér leið eins og ég væri hataðasti maður jarðarinnar. Ég fékk líf­láts­hótanir, fólk sagðist ætla að koma á eftir mér og fjöl­skyldu minni."

Masi á­kvað, sem keppnis­stjóri, í um­ræddum kapp­akstri að leyfa hringuðum bílum að af­hringa sig undir lok keppninnar á bak við öryggis­bíl. Bar­átta Sir Lewis Hamilton, öku­manns Mercedes og Max Ver­stappen, öku­manns Red Bull Ra­cing var þarna í há­marki. Hamilton leiddi keppnina fyrir á­kvörðun Masi og virtist vera með áttunda heims­meistara­titilinn í höndum sér en skyndi­lega breyttust að­stæður.

Hringuðum bílum fyrir aftan öryggis­bílinn hafði verið skipað að halda sig fyrir aftan öryggis­bílinn þar sem að þeir voru stað­settir á milli Hamilton sem var í fyrsta sæti og Ver­stappen sem var í öðru sæti.

Keppnis­stjórn­endur á­kváðu hins vegar að breyta á­kvörðun sinni og leyfðu þeim bílum sem voru hring á eftir for­ystu­sauðunum að af­hringa sig. Frá þeirri stundu varð ljóst að Hamilton ætti erfitt upp­dráttar þar sem að Ver­stappen var á mun betri dekkja­gangi. Svo fór að hann tók fram­úr Hamilton og tryggði sér sigur í stiga­keppni öku­manna. Mót­mæli Mercedes voru ekki tekin gild.

Masi segir að skila­boðin sem bárust til hans, meðal annars í gegnum sam­fé­lags­miðla, hafi verið ó­geð­felld. Hann hafi ekki viljað ræða við neinn í kjöl­farið.

,,Ekki einu sinni fjöl­skyldu og vini. Þetta hafði á­hrif á mig, bæði líkam­lega en aðal á­hrifin urðu á and­legu hliðinni."

For­múla 1 hefur nú sett á lag­girnar á­taks­verk­efni sem miður að því að benda á skað­leg á­hrif niðrandi orð­ræðu á sam­fé­lags­miðlum og fram­kvæmdar­stjóri mótaraðarinnar var inntur eftir svörum á sunnu­daginn síðast­liðinn og spurður hvort eitt­hvað yrði gert til þess að styðja við Masi.

Stefa­no Do­meni­cali, fram­kvæmdar­stjóri For­múlu 1 svaraði því játandi.