Freyr Alexandersson mun verða Erik Hamrén til aðstoðar með íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu. KSÍ tilkynnti þetta í gær þegar Hamrén var kynntur sem næsti þjálfari landsliðsins. Freyr hefur starfað sem njósnari fyrir karlalandsliðið undanfarin ár en verður hægri hönd Hamréns ásamt því að stýra kvennalandsliðinu sem aðalþjálfari.

„Það eru algjör forréttindi að sambandið skuli hafa það mikla trú á mér að ég geti unnið þessi tvö störf á sama tíma. Þegar Heimir hætti var ég spurður hvort ég vildi halda áfram störfum. Svo hafði Guðni samband og spurði hvort ég hefði áhuga á að gerast aðstoðarþjálfari,“ sagði Freyr og hélt áfram:

„Það eina sem skipti máli var að einstaklingurinn sem tæki við liðinu væri sá rétti, ég gat ekki tekið þessa ákvörðun án þess að hitta manninn. Ég hitti hann og heillaðist strax frá upphafi þannig að við fórum að skoða nýtt hlutverk fyrir mig.“

Hann segist ekki ætla að leyfa þessu að trufla störf sín sem þjálfari kvennalandsliðsins. Fram undan eru gríðarlega mikilvægir leikir í undankeppni HM gegn Þýskalandi og Tékklandi.

„Það verður ekki erfitt að blanda þessu saman, þetta er mikil vinna og mikið álag en ég þekki það vel. Ég er búinn að vinna við undirbúning fyrir þessa leiki í þrjá mánuði og á í raun bara eftir að velja hópinn.“

Hann segist hafa fundið fyrir stuðningi frá kvennalandsliðinu.

„Ég tilkynnti stelpunum þetta og fékk ekkert nema frábær viðbrögð. Manni þykir hrikalega vænt um þetta lið og skilaboðin og samtölin sem ég átti voru frábær og ég er ótrúlega þakklátur,“ sagði Freyr.

Á laugardaginn eru aðeins fjórar vikur í næsta leik karlalandsliðsins.

„Við munum velja hópinn tíu dögum fyrir leikinn gegn Sviss en ég er búinn að vera að vinna í því að koma Erik betur inn í þetta. Hann hefur verið að skoða leikmennina til að mynda sér skoðun og við höldum því áfram næstu daga.“