Brasilíski kantmaður Juventus, Douglas Costa, var í dag dæmdur í fjögurra leikja bann í ítölsku úrvalsdeildinni fyrir að hrækja upp í andstæðing sinn í leik um helgina.

Costa gaf Federico Di Francesco olnbogaskot, skallaði hann og endaði svo á að hrækja upp í Francesco. Fékk hann beint rautt spjald eftir það en Juventus náði að innbyrða sigur.

Costa sendi frá sér tilkynningu þar sem hann iðraðist gjörða sinna og sagði að það fylgdi ekki sögunni hvað Francesco hefði sagt við sig sem hefði reitt hann til reiði. 

Fóru orðrómar á flug um að Francesco hefði verið með kynþáttafordóma í garð Costa en Francesco hefur neitað þeim sögusögnum..

Fékk Costa fjögurra leikja bann og mun því missa af leikjum gegn Frosinone, Bologna, Napoli og Udinese.