Ethan Nwaneri, leikmaður Arsenal varð á dögum yngsti leikmaðurinn til þess að spila í ensku úrvalsdeildinni er hann kom inn á sem varamaður undir lok leiks Brentford og Arsenal.

Nwaneri var aðeins 15 ára og 181 daga gamall er hann kom inn á og ljóst að þarna er mikið efni á ferð. Ekki nóg með að leikmaðurinn ungi hafi slegið met í ensku úrvalsdeildinni heldur sló hann einnig með Cesc Fabregas hjá Arsenal sem var, fyrir innkomu Nwaneri, yngsti leikmaðurinn til að spila aðalleik fyrir félagið.

Nwaneri hefur alist upp í akademíu Arsenal og er nú þegar farinn að draga að sér athygli. Enskir miðlar hafa greint frá því að leikmaðurinn ungi sé á radarnum hjá stórliðum á borð við Manchester United, Liverpool, Manchester City og Chelsea.

Fyrrum þjálfari hjá Arsenal, sem vildi ekki láta nafn síns getið og á að baki langan feril hjá félaginu, talaði um Nwaneri í viðtali hjá VAVEL á dögunum. Þar sagði hann að tveir núverandi leikmenn undir 16 ára aldri hjá Arsenal væru eitt mesta efni sem hann hefði séð hjá félaginu, það eru Myles Lewis-Skelly og téður Nwaneri.

„Þessir tveir eru algjörlega framúrskarandi og ég myndi fara svo langt að segja að ef þer fá ekki regluleg tækifæri með aðalliðinu á næstu tveimur til þremur árum gæti félagið átt á hættu á að missa þá."

Margir hafa haldið því fram að Mikel Arteta hafi hent Nwaneri inn undir lok leiks til þess eins að ná metinu. Ian Wright, fyrrum markakóngur Arsenal og goðsögn í sögu félagsins segir það hins vegar af og frá. Arteta, Per Mertesacker þjálfari í akademíu félagsins og Edu, yfirmaður knattspyrnumála hjá Arsenal myndu aldrei taka svoleiðis ákvörðun.

Ian Wright, fyrrum leikmaður Arsenal
Fréttablaðið/GettyImages

„Þeir munu ekki henda leikmönnum inn í liðið bara af því bara. Þeir hafa mikla trú á þessum leikmanni. Hann var að spila fyrir undir 18 ára liðið þegar hann var 14 ára. Það sem þetta gerir hins vegar er að þau skilaboð berast nú leikmönnum akademíunnar að þeir eigi tækifæri á því að spila fyrir aðallið Arsenal."

Nwaneri er það ungur enn að barnaverndarlög í Bretlandi ná enn yfir hann og því þurfti hann að athafna sig í sér búningsklefa fjarri aðalliðsleikmönnum Arsenal fyrir leik.