,,Þetta gæti verið mitt síðasta knattspyrnustjórastarf. Þetta snýst ekki bara um mig. Þetta hefur tekið sinn toll á fjölskyldu mína og það er erfitt að hunsa það," segir Bruce í viðtali við The Telegraph.

Bruce segist hafa talið sig geta tekið við öllu sem á sig gæti dunið þegar að hann tók við knattspyrnustjórastöðunni hjá Newcastle en annað kom á daginn. ,,Þetta hefur verið mjög, mjög erfiður tími. Að vera aldrei velkominn, að finna fyrir því að fólk vildi að mér myndi mistakast og heyra að ég væri einskis nýtur, fituhlunkur sem væri sóun á plássi, heimskur frá degi eitt tók sinn toll," segir Steve Bruce, fyrrum knattspyrnustjóri Newcastle.

Þakkar fyrir að eiga góða fjölskyldu

Hann þakkar fyrir það að eiga góða eiginkonu og fjölskyldu sem hafi ávallt stutt við bakið á honum. ,,Fjölskyldan hefur haft áhyggjur af mér, sértaklega Jan, eiginkona mín. Þvílík kjarnakona sem hún er, ótrúleg manneskja, eiginkona, móðir og amma," sagði Steve Bruce, fráfarandi knattspyrnustjóri Newcastle.

Bruce stýrði sínum eitt þúsundasta knattpyrnuleik um síðustu helgi er Newcastle tapaði fyrir Tottenham í ensku úrvalsdeildinni. Bruce tók við Newcastle árið 2019 og undir stjórn hans endaði liðið í 12. sæti tímabilið 2019/20 og 13. sæti á síðasta tímabili.

,,Ég er þakklátur þjálfarateymi mínu og leikmönnum fyrir vinnusemi sína. VIð höfum farið í gegnum góða og slæma tíma saman en allir hafa gefið allt í þetta og mega vera stoltir af sjálfum sér," var meðal þess sem stóð í yfirlýsingu frá Steve Bruce sem birtist á heimasíðu Newcastle United.