Fyrrum starfsmaður Los Angeles Angels hafnaboltaliðsins var í gær dæmdur í 22 ára fangelsi fyrir að hafa átt þátt í dauða hafnaboltakappans Tyler Skaggs sem lést úr ofneyslu á ópíóðalyfjum.

Eric Kay var sakfelldur fyrir að afhenda lyf sem áttu þátt í dauða Skaggs. Við krufningu kom í ljós að Skaggs var með fentanýl, oxíkontín og áfengi í blóðinu en hann kafnaði á eigin ælu eftir að hafa sofnað.

Skaggs sem var 27 ára þegar hann lést fannst látinn á hótelherbergi sínu daginn fyrir leik Angels gegn Texas Rangers í bandarísku hafnaboltadeildinni, MLB.

Fimm leikmenn úr MLB-deildinni lýstu því í vitnaleiðslum að Kay hafi skaffað þeim oxíkontín og að hann hafi sjálfur neytt lyfsins.

Kay fékk tuttugu ár fyrir þátt sinn í dauða Skaggs og tvö ár til viðbótar fyrir ummæli sín um dauðsfall Skaggs í samtali við fjölskyldu sína.

Í samskiptunum kom í ljós að Kay blótaði Skaggs fyrir dauðsfallið og að dauðsfall hans hafi verið himnasending fyrir fjölskyldu Skaggs sem hafi verið vonlaus leikmaður.