Roger Federer greinir frá því á twitter-síðu sinni í dag að hann muni ekki keppa á fleiri mótum á árinu vegna hnémeiðsla sem eru að plaga hann. Svissneski tennisspilarinn mun þar af leiðandi missa af Opna bandaríska mótinu og Opna franska mótinu sem fram fara í lok sumars.

Federer undirgekkst aðgerð vegna meiðsla sinna í febrúar fyrr á þessu ári og hefur endurhæfingin ekki gengið eins hratt og hann vonaðist til. Þessi 38 ára goðsögn í tennisheiminum boðar endurkomu sína árið 2021 í færslu sinni en hann ætlar þar að bæta við 20 sigra sína á risamótum á ferlinum.

„Ég hlakka til að sjá ykkur á mótaröðinni sem byrjar árið 2021. Ég mun nýta tímann næstu mánuði til þess að ná fullum styrk og sjá til þess að ég geti spilað áfram í hæsta gæðaflokki,“ segir Federer sem er launahæsti íþróttamaður heims samkvæmt nýjasta lista Forbes.

Federer hefur áður komið sterkur til baka eftir erfið hnémeiðsli en það gerði hann árið 2017. Þá hafði hann verið fjarri góðu gamni vegna meiðsla í aðdraganda tímabilsins en vann svo bæði Opna ástralska og Wimbledon-mótið á því ári.